Færsluflokkur: Dægurmál

Árinu eldri

candles-happy-birthday 

það er nú nokkuð öruggt að maður verður með hverju árinu einu ári eldri. Ég er þá formlega núna komin á fertugsaldurinn. Í fyrra gat maður réttlætt 30 árin með því að það væri ekki fyrr en maður væri orðinn 31 árs að hugtakið "fertugsaldurinn" ætti við - nú er bara ekki hægt að forðast það.

En ótrúlegt en satt þá hefur aldurinn engin neikvæð áhrif á mig. Ég er næstum búin að ná mínum markmiðum í bili. Ég á mann, íbúð, barn og kláraði háskólagráðuna mína og er hætt að vera feit. Næsta skref er að eignast stærri íbúð í sérbýli / raðhús / einbýlishús, 2 jeppa, fleiri börn og vinnu sem er þannig að maður ber mikla ábyrgð, hefur mannaforráð, allir líta upp til manns en vinnutíminn er frá 8-14 og aldrei þörf á yfirvinnu eða helgarvinnu. Þess má geta að það eru ekki komin tímamörk á þessi markmið :-).

Afmælisdagurinn í gær var með besta móti. Ég fékk endalausa kossa frá fjölskyldunni minni fallegu, og svo líka frá mínu yndislega samstarfsfólki, mamma bakaði fyrir mig köku sem sló í gegn. Vorum boðin í mat til mömmu og pabba (innbökuð svínalund og humarsúpa) og fengum svo Atla og Freydísi í heimsókn. Ég fékk fullt af pökkum sem skemmir nú aldrei. Kvöldið var svo endað á ælupest sem var í boði Emmu Guðrúnar.

Í kvöld ætla ég svo að fá vinkonu-gellurnar mínar í mat og gefa þeim eitthvað gott að borða.


Tek áskorun...

... sem ég fékk í meili um daginn - annað hvort að blogga eitthvað eða önnur Jóhanna fær plássið...

ég er roooosalega dugleg að skrifa eitthvað - finnst það svo asnalegt og stroka það út, en það er einmitt það sem gerir mig að ekki svo góðum bloggara - ég ritskoða svo það sem ég segi.

En hvað hefur á dagana drifið síðasta hálfa árið - ég útskrifaðist úr HÍ með BA gráðu í sálfræði og viðskiptafræði sem aukagrein. Marseraði uppá svið í Háskólabíó og tók við skírteininu mínur frá Óla H (þeim sem ráðlagði mér að taka aukagrein á móti sálfræðinni af því að Magnús "bara fílaði ekki hvernig ég skrifaði") en hann gaf mér sykursætt bros og tók þéttingsfast í hendina á mér þannig að öll leiðindi í þessarri stofnun urðu bara eftir þarna á sviðinu og ég sit eftir með gráðuna mína.

Og svo er stóra spurningin - hvernig er ég að nýta mér þessa "loksins náði að klára" gráðu - EKKI RASSGAT. Ég er að vinna við nákvæmlega það sama og ég gerði fyrir 9 árum þegar ég byrjaði í minni fyrstu skrifstofuvinnu.... en ég hef aðeins hærri laun. Var að rifja upp að mín fyrstu laun árið 1998 fyrir 8 tíma vinnu voru 75.000 kr á mánuði (fyrstu 3 mánuðina). Ég hef alla tíð verið mjög léleg að semja :-)

Annars voru jólin nú heldur fljót að líða. Ég ætlaði svo að hafa desember kósý og jólalegan og alls ekki falla í jólastress-gryfjuna svona einu sinni sem ég væri ekki í jólaprófum. Jesús minn hvað ég átti ekki eftir að fara eftir því - desember leið bara svona eins og þoku - geðveiki ofan á geðveiki ársins. Það er ekki sniðugt að vinna við innflutning svona rétt fyrir jól og þurfa svo að synda um bæinn að redda hinu og þessu. Ég var hreinlega búin á því þegar klukkan sló 18 þann tuttugasta og fjórða. Svo byrjaði hin geðveikin - jólaboð í fleirtölu. Maður vill auðvitað hitta alla og vera með öllum en come on - eftir nokkra daga var emma farin að segja þegar hún vaknaði "mamma - getur við ekki verið heima í dag" og þá er það nú slæmt.

Svo tekur nú bara við bið eftir sumrinu - ég er mjög bjartsýn fyrir þetta sumar, hef mikla trú á því að það verði sól svona 40% af tímanum og ekki rigning nema svona 10% - sjáums svo bara til hvernig þetta fer :-)


Kannski ekki....

..... alveg duglegasti bloggarinn - ég held að ég verði bara að viðurkenna það...

Mér finnst samt eins og ég þurfi að hafa svo mikið að segja til að deila því hérna og ég hef eiginlega ekki gert neitt nema vinna síðan ég byrjaði

en ég fór samt úr bænum á síðustu helgi - fór að veiða með familíunni, árlegi veiðitúrinn okkar á Ölvesvatn á Skagaheiði. Ég er búin að fara þangað með mömmu og pabba síðan ég var pínu lítil og svo eftir að ég kynntis Guðna þá höfum við farið með. Halldór kom með krakkana og Emma var í essinu sínu með henni Hlín sinni. Það var þrusu veiði - fórum yfir 120 fiska (9 manns) og á tímabili leit út fyrir að Emma yrði aflaklóin (eins og svo oft vill verða með yngstu krakkana) en ég held svo að Daði hafi slegið henni við, enda veiddi hann alveg þangað til bílinn lagði af stað í bæinn.

Guðni minn á afmæli á laugardaginn og ég veit EKKERT hvað ég á að gefa honum, hef hingað til alltaf verið með gjöfina tilbúna löngu fyrir afmælið en stend alveg á gati núna... endilega gefið mér hugmyndir

Nú ætla ég að fá mér kaffi því ég var að mæta og nenni ekki að byrja á neinu fyrr en kaffið er komið í kroppinn.... reyni að vera duglegri að skrifa þá bara ekki um neitt


Búin að fá úr öllum prófum...

c_documents_and_settings_ibm_desktop_ducktalk.gif

.... og náði öllu - vei vei gaman...

 ég fékk ss loksins allar einkunnir og verð að segja að ég er stoltust af 5sem ég fékk í reiknishaldi.. ekki af því að það er 5 og allra allra lægsta einkunn á mínum háskólaferli (sem er orðinn dáldið langur) heldur vegna þess að ég var veik akkúrat þegar ég var að læra fyrir prófið og var ekki búin að sinna því nógu vel í vetur, prófið var geðveikt langt og snúið og ég bara var 100% viss um að hafa fallið í því - heldur er ég stolt vegna þess að meðaleinkunnin var 3,72 þannig að ég var rúmum heilum fyrir ofan meðaltal - féllu 112 (þar af ca 30 sem ekki mættu í prófið og fengu þ.a.l. núll).... en allar aðrar einkunnir voru bara í góðu lagi - endaði með tvær 9 í viðskiptafræðinni en það er sko einkunn sem ég held að sálfræðikennarar hafa bara ekki hugmynd um hvernig lítur út.

Þannig að ég er svoooo glöð - bíð nú bara eftir að klára Þjóðhagfræðina í ágúst og þá útskrifast ég loksins (í október) og það verður svo stór veisla að aldrei hefur annað eins sést :-)

Það er rosalega mikið að gera í vinnunni - dáldið erfitt að fara beint úr geggjaðri próftörn í brjálaða vinnu - ég held annars að það sé ekkert meira að gera hjá mér heldur en öðrum, mér finnst allar mínar vinkonur vera að drepast úr vinnu - alls staðar virðast vera of fáir á hverjum stað - spurning hversu miklu það skilar ......

Ég er búin að nýta helgarnar mínar mjög vel í að kynnast Emmu minni uppá nýtt og auðvitað Guðna - það hefur gengið mjög vel. Við höfum farið á hverri helgi eitthvað í göngu og út á róló og erum farin að þekkja endurnar með nafni - meira að segja fuglafóbían ég reyni að styðja þetta áhugamál þeirra að standa og grýta gömlu mygluðu brauði í fugladruslur sem hafa ekki nokkurn áhuga... annars veit ég ekki hvort hægt er að kalla þetta lengur að "gefa öndunum brauð" - þetta eru ekkert nema máva-ógeð...

en svona er þetta - annað í fréttum - Sirrý vinkona (og Svenni og strákarnir þeirra) voru að kaupa sér raðhús, rosalega flott í æðislegri götu, og svona Neighbours fílingur - mamman í næstu götu, æskuvinkonan í sömu götu (og mamman) en mér finnst það einmitt svo huggulegt. Björg, æskuvinkonan mín gifti sig í lok maí (20. maí) og það var svo gaman í brúðkaupinu, fullt af hugmyndum sem ég fékk (svona ef maður ákveður að drífa í þessu).

Jæja - Guðni er á tónleikum svo ég ætla að nýta kvöldið í að fara að sofa - langt í næstu helgi (fyrsta vikan minnir mig með heilum 5 vinnudögum - úff)


Kosningar búnar.....

.....og úrslitin alveg í samræmi við flestar skoðanakannanir - þetta er ekkert gaman lengur, engin spenna :-)

Ég horfði á NFS í gær og það var alveg brilljant að fylgjast með fréttamönnunum - það var alveg sama hvort þeir voru staddir í myndveri, ráðhúsinu eða á Býldudal það var alls staðar "gífurleg spenna í loftinu" og það var spurning á tímabili hvort það myndi líða yfir Sigmund Erni af spenningi.

Annars var þessi helgi "hin fullkomna helgi" (og hún reyndar er enn í gangi). Á föstudaginn var matarklúbbur þar sem ég eldaði roooosalega góðan mat, þó ég segi sjálf frá. Í aðalrétt voru humarfylltar kjúklingabringur með kartöflurétti úr grænmetisbók Hagkaupa (með rauðlauk, hvítlauk, timjan, rósmarín og sítrónu) og svo auðvitað geggjað sallat með balsamic dressingu. í eftirrétt gerði ég svo holla súkkulaðiköku úr spelti, ávaxtasykri með súkkulaði (úr hrásykri) og svo fullt af ávöxtum og svo auðvitað geggjað kaffi (spari kaffi úr sparibollunum mínum - já ég á sparibolla sem ég nota bara við sérstök tækifæri - ss þegar ég fæ gesti ) meira að segja Heiða smakkaði kaffi - ég reyndi mitt besta að gefa henni kaffi sem átti ekki að bragðast eins og kaffi en hún fann keiminn - skil það svo sem alveg þegar maður drekkur ekki kaffi.

Í gær löbbuðum við í Hellisgerði þar sem Kraftur var með fjölskyldudag. Við vorum þar með Ingimundi, Elísabetu og Jóhann Ísak sem var að upplifa gras í fyrsta sinn og fannst það geggjað. Eftir það þá löbbuðum við í miðbæ Hafnarfjarðar og hefur bærinn aldrei verið eins fullur af lífi - eiginlega synd að þetta gerist bara einu sinni á fjögurra ára fresti - hefði kannski átt að vera kosningaloforð einhverra flokka að gæða bæinn lífi um venjulegar helgar líka - nema hvað að svo fórum við að kjósa. Þegar ég beið í röð eftir að fá að skrifa mitt X þá allt í einu uppgötvaði ég hversu mikilvægt mér finnst að fólk nýti sér kosningarétt sinn - á mörgum stöðum í heiminum fær fólk almennt ekki að kjósa eða t.d. konur mega ekki kjósa (eða almennt hafa skoðanir) og svo hérna þar sem fólk fær að hafa sínar skoðanir og að hafa áhrif þá eru kannski 40% sem ekki nýta sér það - skamm skamm

Í gærkvöldi grilluðum við svo og fórum svo til Atla og Freydísar að spila þar sem ég (og Andri sem er vinur þeirra) unnum - það er bara ekki gaman að spila Trivial nema maður vinni (ég er samt ekki tapsár - djók).

Nú sitjum við Emma saman í kúldri og horfum á Tarzan og erum aaaalveg að fara út að gera eitthvað skemmtilegt - heil vinnuvika framundan (úff) og svo löng helgi (aaahhhh)


Höfundur

Jóhanna
Jóhanna

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband